Viðtal í Víkurfréttum

Hérna má sjá viðtal við yours truly sem birtist um daginn í Víkurfréttum sem er staðarblaðið á Suðurnesjum.
http://www.vf.is/mannlif/fadmar-fastar-og-oftar/62591

Tilgangurinn er að benda fólki á að viðhorfið er svo mikilvægt þegar áföll dynja á í lífinu. Jú og auðvitað þakklæti fyrir tilveruna og sérstaklega allt það fólk sem í kringum mann eru, sem þykir vænt um mann og manni þykir vænt um.

Þessi sem er endalaust þakklát fyrir Ljósvíkingana sína

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Hægt, hægt kemur ljósið….

Jæja, þá er viðtalið yfirstaðið. Það sem þyrfti kannski að fylgja sögunni er að ég fór í eftirlitsrannsóknir fyrir mánuði síðan og þá fundust eitlastækkanir í kviðarholi og ég var búin að vera með magakveisuna sem var að hrjá hér um bil alla landsmenn akkúrat daginn sem ég fór í tölvusneiðmyndatökuna. En þar sem sjúkdómasagan mín er nú þannig að krabbameinið hefur átt það til að fara aftur af stað þá þótti lækninum mínum ástæða til að fá mig aftur í rannsókn í dag eða mánuði seinna.
Eins og gefur að skilja þá hef ég verið hræðilega kvíðin og liðið mjög illa síðustu vikur og síðustu dagar hafa hreinlega verið tja… óbærilegir. Ég er ósofin, hef lítið sem ekkert borðað og gengið um með kvíðahnút í maganum og hef þurft að stóla á djúpöndun og rólegheit til að halda haus. Svo kom þessi dagur í dag! Úff!!
Ég var búin að undirbúa mig fyrir að fá einhverjar ömurlegar fréttir í dag en þó alltaf að reyna að halda í vonina um að þessar eitlastækkanir væru tengdar þessari magakveisu. Og viti menn! Haldiði að ég sé ekki bara komin í 6 mánaða langt frí frá rannsóknum OG haldiði ekki bara að það sé komið á dagskrá að fjarlægja lyfjabrunninn úr mér! Og haldiði bara ekki að framtíðin blasi við mér með ó svo mörgum valmöguleikum og tækifærum að það hálfa væri nóg! Ekki nóg með allt þetta þá sagði læknirinn minn í dag að honum þætti ólíklegt að eitlakrabbameinið taki sig upp aftur miðað við hvað langt er síðan ég fór í stofnfrumuígræðsluna. Og læknirinn minn segir voðalega lítið og ég hef aldrei heyrt hann vera svona vongóðan fyrir mína hönd.  Sem sagt eitlastækkanirnar voru vegna magakveisunnar!

Ég hreinlega bara á ekki til orð. Ég er búin að gráta, ég er búin að hlæja en ég er mestmegnis búin að vera að andvarpa í gríð og erg. Það að fá svona góðar fréttir var bara ekki eitthvað sem ég var ekki búin að búa mig undir. Ég er óendanlega þakklát fyrir að fá meiri tíma til þess að gera fallega og góða hluti í þessu lífi. Að faðma meira og oftar, að hlæja meira og oftar og fá að upplifa meira og fleira. Ég er búin að vera í hálfgerðu áfallsástandi í dag og er að meðtaka allt sem hefur gerst í dag og sé frammá að vera þar í einhvern tíma. En dvuð góður hvað þetta er mikill léttir. Það að fá svona langt hlé og að losna við lyfjabrunninn hann Lalla, hefur verið mér svo órafjarlægt þar til allt í einu í dag.
Takk svo innilega fyrir allt það fallega sem þið hafið verið að senda mér síðustu daga. Ég er endalaust þakklát fyrir að það sé svona mikið af dásamlegu og gefandi fólki í mínu lífi.

Knús á línuna og Onelove ó svo mikil Onelove ❤

Þessi sem býr sig ávallt undir það versta og veit svo ekki hvaðan á sig stendur þegar það besta gerist!

Posted in Uncategorized | 4 Comments

Árin tvö en Hárin mörg <3

Ég veit að það er langt síðan að ég lét í mér heyra síðast. Enda gerði ég það vísvitandi… aðeins að draga mig í hlé og skoða sjálfa mig fyrir utan veikindin. Upplifa hluti í lífinu án þess að þurfa að láta alla vita. Þessi stöðuga naflaskoðun er líka bara nokkuð erfið og oft á tíðum verulega sjálfhverf.

En núna er hausinn fullur og því gríp ég í að rita niður einhver orð til þess að „draga“ uppúr höfðinu allt það sem þar er á ferð. Því að á þessum tíma fyrir tveimur árum voru það vélar sem sáu um að anda fyrir mig þar sem ég gat það ekki sjálf.

Ég er búin að vera upplifa svo ótrúlega margt einkennilegt síðustu tvær vikurnar. Búin að þurfa að fara á bráðamóttökuna til þess að kanna hjartsláttartruflanir sem ég er búin að vera með og fara í loftskiptapróf, tölvusneiðmyndatöku, röntgenmyndatöku og allskyns blóðrannsóknir – og allt þetta er að gerast á sama árstíma þegar ég endaði ferð á bráðamóttökuna, í öndunarvél… Og ég auðvitað ótrúlega hrædd.

Ég veit vel að þessi árstími kemur alltaf til með að vera mér erfiður andlega því maður er alltaf í einhverju uppgjöri í lok árs bara eins og allir aðrir og ég veit að þetta kemur alltaf til með að vera í huga mér. En núna, í þetta skiptið þá hefur þetta verið mér mjög svo ofarlega í huga og ekki bætir úr skák þegar maður er að standa í einhverju læknastússi og heimsækja bráðamóttökuna. Kvíðinn hefur verið í hámarki síðustu daga og ekki er til neinn mælikvarði sem ég þekki á andlegt álag þessa daga.

Ég var að lesa yfir færslur sem settar voru inn í Ljósvíkingahópinn minn á þessum tíma og mikið sem þetta hefur verið hræðilegt fyrir þau – ég man sem betur fer lítið eftir þessu. Ég man þó eftir því að berjast með öllu mínu fyrir því að draga andann, ég man eftir því að hafa farið í öndunarvél sem er kölluð „Hjálmurinn“ og ég man eftir því að hvernig vélin blés í mig súrefni og það „eina“ sem ég átti að gera var að leyfa vélinni að gera nákvæmlega það….
Ég man hvað ég var hrædd og ég man stundina sem ég gafst upp… Man eftir stundinni sem ég gaf loksins grænt ljós á að vera svæfð og sett í stærri öndunarvél… Ég man stundina þegar ég gaf frá mér lífið og setti í hendurnar á starfsfólki gjörgæslunnar og tækninnar…. Stundin sem ég hugsaði: „Mikið er ég fegin að hafa skrifað fjölskyldunni minni falleg bréf í jólagjöf“. Stundin sem ég hélt að væri sú síðasta.

Ég man svo stundina þegar látin móðuramma mín tók á móti mér og faðmaði mig.

Þetta var lífshættulegt ástand sem ég var í og mjög svo tvísýnt með hvernig þetta færi allt saman. Hvort að ég hreinlega myndi lifa þetta af. Ég get ekki ímyndað mér hvernig fólkinu mínu hefur liðið á þessum tíma og ég fæ sting í hjartað að þau hafi þurft að upplifa svona mikla hræðslu – á meðan ég var bara hjá ömmu Níllu.

Á síðustu tveimur árum þá hefur margt og mikið gerst og ég gæti verið í allt kvöld og líklega allan morgundaginn að skrifa niður alla þá smásigra og stórsigra sem ég hef upplifað síðan þá. En ég ætla ekki að gera það. Heldur ætla ég að setja einbeitinguna á þetta nýja ár…ég ætla mér marga góða hluti á þessu ári og ég veit að hægt og bítandi þá á ég eftir að nálgast sjálfa mig skref fyrir skref, cm fyrir cm þar til að ég verð sterkari en ég er í dag – á alla vegu. Þar til ég næ að tækla áhyggjuneikvæðuNillu og snúa hana niður og sýna henni eitthvað sem glitrar. Þar til ég verð jákvæðaNillan sem ég eitt sinn var. Þar til ég næ að sýna kvíðatröllinu hvar það má „stick it where the sun don´t shine!“. Þar til að ég fjarlægist veikleika mína og nálgast styrkleika mína. Þar til að ég get látið ljós mitt skína í stað þess að hanga í dimma hellinum. Þar til tilfinningalegi farangurinn verður skilinn eftir í fortíðinni þar sem hann á heima og ég ferðast um léttar. Þar til að ég afsanni kenninguna um að sá sem verður eitt sinn öryrki verður ávallt öryrki og snúi aftur með krafti út á vinnumarkaðinn. Þar til að verða mamma verður sko bara VÍST hluti af minni framtíð. Þar til Hr. Hodgkins verður mér fjarlægari. Þar til að allir aðskotahlutir líkt og lyfjabrunnur verður fjarlægður úr mér og ég þarf ekki að hræðast það að keyra bíl af því að bílbeltið liggur ofan á lyfjabrunninum.
Þar til… þar til…. þar til….

EN þangað til ætla ég að þakka fyrir lífið, fyrir súrefnið, fyrir fjölskylduna mína og fyrir vini mína.
Þangað til ætla ég að njóta líðandi stundar, auka allt það jákvæða sem ég geri, hlæja meira og „vera“ meira.
Og vera bara núna.

Knús á línuna og Onelove

Þessi sem þakkar fyrir lífið…

 

Já og ps.

Gleðilegt ár

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Rollercoaster ride baby!

Ok. Rannsóknum lokið (sem betur fer) og þar með öllu hugarangri er tengist þeim – í bili. Og niðurstaðan er frábær! Ég er komin í frí frá rannsóknum í 4 mánuði. Ogégáekkitilnógulangtlýsingarorðtilþessaðútskýrahvernigmérlíður!!!!

Þetta er lengsta hléið sem ég hef fengið hingað til eða síðan í september 2010 og ég vona að þau hlé verði lengri og lengri eftir því sem líður á. Ég hef ekki alveg misst tök á sjálfri mér í þetta skiptið. Er jú auðvitað búin að vera í að þreifa á mér hálsinn og vera svefnlaus og með áhyggjur en ekki alveg yfirkeyra mig í stressi. Eða þúst jú samt en samt ekki!

Ég fór meira að segja alein í tölvusneiðmyndatökuna sem var þvílíkur sigur fyrir mig. En ég verð þó að viðurkenna að ég er búin að vera önug og með stuttan þráð síðustu vikuna fyrir viðtalið. En ég vona að fólk fyrirgefi mér það. Þetta er eitthvað sem ég þarf að læra betur að ná tökum á og vonandi kemur það hægt og rólega þegar lengri tími líður frá. Ég missti mig allavega ekki „alveg“  í að þreifa á mér hálsinn né að hugsa allt það ömurlega vonda og glataða sem gæti mögulega gerst eins og: „Já, þú finnur ekki neina stækkaða eitla EN þú veist að ein aukaverkunin af lyfjameðferðinni sem þú ert búin að fá er hvítblæði og maður finnur það ekki í eitlunum!“ Og þar fram eftir götunum. Eða æji jú, ég er alveg búin að hugsa það en sú hugsun hefur ekki alveg með öllu gleypt mig. Ekki þetta svarthol sem hefur oft verið til staðar.

Það er merkilegt hvað ég get orðið svartsýn og merkilegt hvað ég leyfi mér að vera vond við „bestu vinkonu mína“ í þessum kringumstæðum. Oft eins og ég sé bara á fullu í að undirbúa mig fyrir það allra, allra versta og að ég þori ekki að leyfa mér að vona það allra besta!  Þetta innra bölsýnistal er eitthvað sem ég þarf að vinna í.  Sér í lagi að miðað við sjúkdómssöguna mína þá fór Hr. H alltaf strax aftur af stað eftir meðferðirnar en hefur ekkert látið á sér kræla eftir háskammtameðferðina með stofnfrumuígræðslunni. (Hér hristi ég hausinn og hugsa: „Auðvitað á enginn að þurfa að tala um lífið eins og viðkomandi sé staddur í vísindaskáldsögu!“)

Samt er svo skrítið að núna þegar ég er komin í „frí“ þá koma upp fullt af gömlum tilfinningum sem ég hef ekki náð að díla nægjanlega við í gegnum allt þetta ferli. Eins koma upp eeeeldgamlar tilfinningar. Allskyns „hvað ef“ spurningar og allskyns vangaveltur um lífsákvarðanir sem ég hef tekið í gegnum tíðina og núna þegar svigrúmið skapast þarf ég að endurraða öllu í kollinum á mér og eins í hjartanu á mér. Það er ótrúlega einkennilegt að vera stöðugt að fara í gegnum allt „sjálfið“ sitt og vera stöðugt að endurraða öllu innvolsinu sínu á nýjan leik. Kannski er það eðlilegt að þurfa að fara í gegnum allt aftur eða kannski er ég bara svo brotin að ég þarf að skoða allt uppá nýtt og pússla mér hægt og rólega saman. En verð ég einhvern tímann komin á þann stað í lífinu að ég geti hætt að endurraða? Verður einhvern tímann sá tími í mínu lífi sem ég get hætt að hugsa um hvort ég geti orðið mamma eða hvort að Hr. H láti mig í friði? Hvort að lungun mín lagist meira eða hvort að ég verði fær um að snúa aftur út á vinnumarkaðinn? Hvort að ég fái að verða gömul? Hvort að ég verði gömul með enga „afkomendur“? Æji það er svo ótrúlega margt sem rennur í gegnum hugann minn og svo margt sem ég hef þurft að leggja til hliðar sem þarf að bíða betri tíma. Mikið vildi ég að ég gæti hreinlega (og núna kem ég til með að hljóma ansi grunnhyggin) bara farið á djammið!!! Bara farið hvert sem mér dytti í hug! Bara gert það sem mig langaði hverju sinni! Bara sett stefnuna á einn punkt, eitt markmið og að það væri eitthvað í líkingu við að fá launahækkun eða klára námið, verða mamma, ferðast á tiltekinn stað, fara út að skokka, geta gengið upp tröppurnar heima hjá mér án þess að standa á öndinni, getað verið án þess að vera með súrefnikút, geta farið í langan göngutúr, dansað salsa, gengið á fjall…..

En ég er föst í að setja orðið „En“ í upphaf setningar. Eða „hvað ef“ . Æji, stundum óska ég þess að ég fengi hlutina svolítið fyrirhafnalítið eða fengi bara óskir og langanir uppfylltar. Að ég þyrfti ekki að lifa í ótta við Hr. H eða þyrfti ekki að bíða eftir að lungun lagi sig. Að ég gæti gert eitthvað til þess að flýta ferlinu til þess að komast úr startholunum og að ég gæti átt hinn hefðbundna draum um eðlilegt fjölskyldulíf í framtíðinni. Svo vakna ég við raunveruleikann. Ég verð ekki „mamma“ á hefðbundinn máta. Kannski verð ég aldrei „mamma“. Og þar af leiðandi aldrei „amma“. Ég sé það að ég þarf heldur betur að uppfæra hlutann „Um mig“ hér á síðunni.

En ég er samt ótrúlega þakklát. Þakklát fyrir að vera á lífi. Þakklát fyrir að geta tekið þátt í lífinu þrátt fyrir allar þær hömlur sem eru í kringum mig. Þakklát fyrir að vera frænka. Þakklát fyrir vini mína. Þakklát fyrir fjölskylduna mína. Þakklát fyrir allt þetta fallega fólk sem stendur við bakið á mér og sendir mér strauma. Þakklát fyrir að finna loft í lungum og hjartað slá taktfast. Þakklát fyrir getuna til þess að upplifa tónlist, horfa á lífið í kringum mig þó svo að ég geti ekki verið með á þann hátt sem ég myndi helst kjósa – þá get ég samt tekið þátt eða fylgst með.

At the end of the day þá er ég umfram allt þakklát.

Takk fyrir mig – takk fyrir þig – takk fyrir lífið alveg eins og það er.

Þessi sem reynir að sætta sig við það sem hún getur ekki breytt og er þakklát fyrir að vera eins og hún er.

Posted in Uncategorized | 1 Comment

Þolinmæði þrautir sigrar allar… eða þúst… svona oftast…

Enn og aftur komið að rannsóknum. Þær eru í næstu viku og ég verð ætíð jafn stressuð. Þetta er náttúrulega ekkert fyndið. En ég er fegin að ég skrifaði í síðasta pistil smá note to self. Forvörnin í geðheilsu er að gera sér skil núna, hehehe. Ég er allavega ekki farin að missa mig í þukli á hálsi en fylgist alveg með þeim eitlum sem ég veit af og hvort þeir séu að stækka eða ekki. En þetta virðist vera til friðs.

Það eru stöðugar framfarir hjá mér þó svo að ég væri svoooo til í að þetta myndi nú gerast töluvert hraðar. Ég fór í loftskiptapróf í mars og þá kom í ljós að loftskiptin hjá mér eru að fara hægt batnandi. Þau voru í 24% í janúar í fyrra (allt fyrir neðan 80% er skerðing) og núna eru þau komin í 40%. Sem er frábært. Þannig að ég er farin að prófa mig áfram (undir eftirliti) að minnka súrefnið og svona að reyna meira á mig. En þá orgar stoðkerfið á mig með verkjum. EN! Maður veit ekki nema að prófa sig áfram. Ég horfi meira í allt þetta litla og þetta gæti verið verra.. framfarirnar gætu verið engar.

Ég er hætt á hjartalyfjunum og það er æðislegt. Það er búið að fylgjast vel með mér í Hjarta- og lungnastöðinni þar sem ég æfi. Alltaf verið að taka blóðþrýsting og súrefnisupptöku í blóðinu og svona kanna stöðuna á mér eftir að ég hætti á lyfjunum og svo fór ég í hjartaómskoðun um daginn og hjartað mitt virðist plumma sig bara vel þó að það sé ekki á neinum lyfjum. Sem er svooo meiriháttar!!! Svo tók ég ákvörðun um að hætta á svefnlyfjum sem ég er búin að vera á meira og minna síðan að ég greindist og það gekk nú bara ágætlega að hætta á þeim. Þurfti að vanda mig svolítið við að „trappa“ þau niður og svona en það hófst. Svo auðvitað má ekki mikið út af bera hvað varðar áhyggjur og álag og þá fer svefninn í klessu. EN þessi hér er orðin lyfjalaus!! Vúbb vúbb! Núna tek ég bara vítamín, jógúrtgerla og hormón! Þetta er allt að færast í eðlilegt horf svona fyrir utan tilfallandi mál eins og áhyggjur. En það er samt ekki gott fyrir andlegu hliðina að vera stöðugt með áhyggjur.

Nægar eru áhyggjurnar fyrir og svo ofan á allt svona dagsdaglegt þá hafa fjárhagsáhyggjur verið að sliga mig ansi mikið þessa dagana þar sem að Tryggingastofnun er búin að vera að draga lappirnar með pappírana mína. Svo virðist ekki vera samfella í „kerfinu“ þegar maður klárar réttindin sín á endurhæfingarlífeyri og er að fara yfir á tímabundna örorku. En eftir óhemju mikið pappírshaf og símtala flóð þá er þetta vonandi allt að ganga í gegn um mánaðarmótin júní-júlí. Á meðan þarf ég að treysta á mafíuna mína, óróana og reyna að hafa sem minnsta áhyggjur af þessu öllu saman. En peningaáhyggjur eru ekki áhyggjur fyrr en maður á enga peninga!! Hahaha…

Ég er sjálf ekkert sérlega trúuð en ég er farin að vera frekar forlagatrúar þessa dagana þar sem að þó svo að það sé andlegt álag og oft erfitt þá gerist svo margt fallegt á sama tíma. Það er merkilegt hvað mikið gott berst til mín þegar mér finnst þetta allt vera frekar púkalegt. Og það úr ótrúlegustu áttum og frá öllu því dásamlega fólki sem í kringum mig er. Vitiði ég er svo ótrúlega lukkuleg í ólukkunni og er það vegna þess hvað ég er svo rík af vinum og góðu fólki sem vill allt fyrir mann gera. Ég skil bara ekki hvernig fólk getur verið eitt að standa í þungum róðrum. Ég gæti það ekki. En svona er ég heppin  – þetta reddast allt og ef maður á ást og er elskaður af þeim sem í kringum mann eru þá er ekkert svo slæmt að maður geti ekki komist yfir það. Hreinlega ekki neitt. ❤

Annars er allt gott að frétta. Er loksins búin að finna mér iðju sem ég hreinlega elska og það er origami-ið. Eitthvað sem beinir huganum frá öllu þessu sem getur gleypt mann. Ég nillaogfuglarnirget setið tímunum saman og brotið pappír og er alltaf með pappír með mér hvert sem ég fer. Bara eins og sumar konur eru með prjónana með sér. Það má eiginlega líkja þessu við hugleiðslu. Allavega líður mér ákaflega vel við það eitt að brjóta pappír. Og ég fagna hverjum fuglinum sem verður til. Mér finnst þeir allir svo fagrir og veit að þeir boða ekkert nema ró, fegurð og óskir. En það sem mér finnst fallegast er að það er enginn þeirra fullkominn – alveg eins og við. Enginn eins en allir með sama uppruna. Love it!

Ég vona að þið séuð öll dugleg að þakka fyrir fólkið ykkar, bæði í huga og hjarta og segið það jafnvel upphátt við þau. Falleg orð eru nefnilega svo dýrmætur farangur í hjartanu okkar ❤

Onelove

Þessi sem reynir að vera þolinmóð gagnvart „kerfinu“ – gagnvart sjálfri sér og öðrum. 27-28-29-20og10…..

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Hrós dagurinn mikli.

Ég er búin að vera að hugsa mikið í morgun um hverjum mig langar til þess að hrósa og hvernig hrósið ætti að komast alla leið til viðkomandi. Og eftir vangaveltur þá ákvað ég að setjast niður og gera bara lista og setja hann hér inn.

Fyrst á listanum mínum eru auðvitað foreldrar mínir, systkini og vinir. Ég hef svo oft sagt að ég sé sú ríkasta sem ég þekki og kemst í sífellu að sömu niðurstöðu. Ég erþaðbara!! Og ef eitthvað er þá virðist ég ríkari því meir sem lífið líður áfram. En svo að ég hefji nú upptalninguna…..

Elsku mamma mín, takk fyrir að hughreysta mig, faðma mig og hvetja mig til dáða í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur í gegnum tíðina. Og að vera alltaf jákvæð fyrir mína hönd í veikindunum. Þú ert svo flott og gjafmild kona. Þú ert svo hjartahlý og góð við alla í kringum þig. Þú setur fólkið þitt ætíð í fyrsta sæti og ert sífellt að reyna að auðvelda öðrum dagana sína. Ég er svo stolt af því að vera dóttir þín og vinkona. Takk fyrir að vera til. Ég elska þig.

Elsku pabbi minn. Þú ert mér svo mikil fyrirmynd og hefur alltaf verið en kannski sérstaklega eftir að ég veiktist. Þú hefur svo mikinn skilning á því sem ég hef verið að ganga í gegnum. Þú hefur sýnt mér og kennt mér svo ótrúlega margt um “verkefni lífsins” og hvaða leiðir eru í boði til þess að vinna úr þessum verkefnum. Þú ert svo góður vinur minn og það er svo langt í frá að vera sjálfssagður hlutur. Þú býrð yfir svo mikilli vitneskju um svo ótrúlega marga hluti og ert alltaf til í að ræða málin og aðstoða mig við að setja hlutina í samhengi. Ég er svo stolt af því að þú sért pabbi minn. Takk fyrir að vera til. Ég elska þig.

Elsku fallegu systkinin mín. Úff. Þið eruð æðisleg öll með tölu. Ég held að ég gæti ekki verið meira stoltari af neinu en að tilheyra okkar fjölskyldu. Ég veit að ekkert okkar er eins og við höfum öll nóg með okkur. En þegar á reynir þá stöndum við saman og styðjum hvort annað. Þið eruð öll búin að reynast mér svo vel og við erum öll góðir vinir. Ég þekki ekki nein önnur systkini sem vilja vera eins mikið til staðar og þið. Öll á sínum forsendum og öll með sína styrkleika fremst í fararbroddi. Þið eruð meiriháttar. Ég elska ykkur!

Vinirnir mínir. Elsku, fallegu, dýrðlegu, dásemdar vinirnir mínir. Úff. Ég fæ bara tár í augun og fyllist svo miklu þakklæti fyrir það að þið séuð til. Ég hef mikið þurft á ykkur að halda í gegnum tíðina en aldrei eins mikið og síðan að ég veiktist. Og þið létuð bara ekkert á ykkur standa heldur eruð þið búin að vera svo örlát á ykkar tíma og stuðning, hvatningarorð, væntumþykju og hlýju. Og þannig fylla á þessi “tómu batterý” sem hef verið að ganga ég á. Þið eruð meira að segja búin að vera viljug til þess að hlúa að vináttu okkar “skipulega” og oft eingöngu í einstefnu þar sem ég hef verið svo beygð og oft buguð. En það er fyrir ykkar tilstilli að ég er ekki brotin. Þær stundir sem ég hef verið við að brotna þá hafið þið bara tekið höndum saman og stillt ykkur upp í kringum mig svo að ég megi styðja mig við ykkur (og nú hágræt ég). Það er ekki nokkur leið til þess að lýsa því hversu mikils ég met ykkur elsku fallegu þið. Takk frá hjarta hjarta míns fyrir að vera til. Þið eruð gullin mín! Ég elska ykkur!

Elsku deitmaðurinn. Hann er búinn að vera mér ákaflega góður. Hefur sýnt mér skilning í hryllilegum aðstæðum, viljað kyssa mig og halda utan um mig þó svo að ég sé búin að vera sköllótt, bólgin, hrædd og mikið mikið veik. Hann reynir alltaf sitt besta og leggur sig fram við að veita mér hlýju og gleði. Takk fyrir að vera til. Ég er nú soldið skotin í þér. Eða þúst….

Elsku fávitaböddnin mín. Ég vil fá að hrósa ykkur, þessum frábæru ungmennum sem þið eruð. Þið eruð búin að sýna mér að maður má aldrei gleyma að leika sér og hafa gaman. Eins tókuð þið höndum saman og stóðuð fyrir einu merkilegast kvöldi lífs míns þegar þið hélduð styrktartónleikana í mars í fyrra. Þið og allir sem stóðu að og tróðu upp á þeim eiga mikið hrós skilið fyrir elskusemi og velvilja til góðra verka. Þetta kvöld kemur til með að lifa í minningunni sem „Kvöldið sem hjartað í Nillu sprakk!“ Þið rokkið!!!!

Fólkið og skvísurnar sem ég hef kynnst á þessari vegferð í gegnum veikindin. Þið eruð naglar. Þið eruð töffarar hvort sem þið eruð með hár eða á skallanum. Hvort sem þið eruð í meðferð eða ekki. Bæði þau sem hafa yfirgefið þennan heim og þau sem eru hér enn – þið eruð fyrirmyndirnar mínar. Minn “banki” til þess að leita í til að afla mér upplýsinga og styrk. Þið hafið öll kennt mér eitthvað á lífið. Takk fyrir allt og allt.

Þið öll þarna úti sem hafið sent mér hlýju, bænir, falleg orð, styrk, eitthvað fyndið til að létta daginn eða jákvæðni til að halda áfram og hughreyst mig á þann hátt. Takk fyrir að hugsa til mín og senda mér jákvæðni og hlýju. Þið eruð megasegameiriháttar! Takk fyrir ykkur!

Allir þeir sem hafa gefið blóð eiga hrós skilið. Ég væri ekki hér ef ekki væri fyrir óeigingjarna og svo mikilvæga gjöf. Blóðgjöf er lífsgjöf.

Svo verð ég að enda upptalninguna á öllu því frábæra fólki innan heilbrigðisgeirans sem hefur komið að mínum málum, liðsinnt mér, sinnt mér og hlúð að mér þegar ég var sjálf ófær um það og bjargað lífi mínu þegar ég var við það að fjara út. Takk, endalaust takk. Þið eigið skilið hrós fyrir ykkar óeigingjarna starf okkur hinum til lífs og heilla.

Knús á línuna og Onelove

Þessi sem er á hrósóverlódi!!!

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Áþreifanlegt viðtal…

Þá er viðtalið loks afstaðið og viti menn… allt lítur svona glimrandi vel út. Ég var búin að búa mig undir einhverjar slæmar fregnir þar sem ég var búin að finna eitla á nokkrum stöðum. Við viðbeinið á mér hægra megin, við vinstra kjálkabarð og beggja vegna á hálsinum. Ég gerði þar af leiðandi ráð fyrir því að Hr.H væri búin að næla sér í bólfestu enn og aftur. En svo er ekki raunin. „Eitillinn“ sem ég fann í hvilftinni við viðbeinið er ör eftir eitil sem var fjarlægður sem sýni þegar ég greindist árið 2010. Og hinir eitlarnir sem ég fann hafa víst verið til staðar í nokkurn tíma en hafa ekki verið svona áberandi fyrr en nú þar sem ég er hægt og rólega að grennast. Þeir hafa sést á sneiðmyndatökunni en ég hef ekki fundið svona mikið fyrir þeim.

Ég get ekki líst því hversu fegin ég er og ég get ekki líst því heldur hversu hrædd ég er búin að vera. Ekki bara ég því auðvitað eru mamma og pabbi, deitmaðurinn og allir í kringum mig búnir að vera nokkuð hræddir. Enda kannski ekkert skrítið. Maður er vanur að fá einhverjar leiðindaniðurstöður og vera svo oft í 10% hópnum, fá alvarleg viðbrögð við lyfjameðferðum og sitja uppi með mikið laskaðan líkama og skerta lungnastarfsemi eftir allt þetta havarí. Þess vegna er manni ef til vill eðlislægara að gera ráð fyrir einhverju neikvæðu frekar en ekki.

En nú eru komnir betri tímar. Sem betur fer. Og allir möguleikarnir sem voru við fingurgómana eru nú í hendi mér. Möguleikarnir eru hreinlega orðnir áþreifanlegir. Og núna þarf ég að þjálfa upp jákvæðnina. Þjálfa upp heilbrigðari viðbrögð og minna mig á fyrir næstu skoðun, á ferlið sem fylgdi þessari. – Note to self: Þú ert með áþreifanlega eitla á hálsinum beggja vegna. Þú ert með áþreifanlegt ör í hægri viðbeinshvilft. Þú ert með áþreifanlegan eitill við vinstra kjálkabarð.

EKKI FRÍKA ÚT! ANDAÐU INN OG ANDAÐU FRÁ ÞÉR!

Knús á línuna og Onelovelyness

Þessi sem fer í skoðun eftir þrjá mánuði.

Posted in Uncategorized | 10 Comments